Argentínski snillingurinn Lionel Messi mun yfirgefa franska stórliðið PSG í sumar en óvíst er hvert hann fer næst. Síðasti leikur Messi fyrir PSG fer fram í kvöld þegar PSG tekur á móti Clermont á heimavelli.
Hans draumur er að snúa aftur til Barcelona og það er vilji spænska félagsins einnig. Fjárhagsvandræði félagsins virðast hinsvegar vera að koma í veg fyrir það að það geti fengið Messi aftur.
Ýmsir miðlar greina nú frá því að Al-Hilal í Sádi-Arabíu muni kynna Messi til leiks sem nýjan leikmann félagsins áður en langt um líður.
Argentínumaðurinn gekk til liðs við PSG árið 2021 og tjáði hann sig um tíma sinn hjá PSG í viðtali við ESPN á dögunum.
„Ég er ánægður að hafa verið fulltrúi PSG. Ég naut þess að spila fyrir þetta lið og með svona góðum leikmönnum. Ég vil þakka félaginu fyrir þessa æðislegu reynslu.“ sagði Messi.