Guðlaugur lagði upp mark fyrir Benteke (myndskeið)

Guðlaugur Victor Pálsson lagði upp sigurmark D.C. United í nótt.
Guðlaugur Victor Pálsson lagði upp sigurmark D.C. United í nótt. Ljósmynd/DC United

Íslenski landsliðsmaðurinn Guðlaugur Victor Pálsson lagði upp mark fyrir Christian Benteke þegar lið hans D.C. United sigraði Inter Miami í bandarísku MLS-deildinni í knattspyrnu í nótt, 2:1.

Guðlaugur Victor spilaði á miðjunni í leiknum og lagði hann upp markið í uppbótartíma seinni hálfleiks, þetta var önnur stoðsending Guðlaugs Victors á tímabilinu og báðar hafa þær verið á Christian Benteke.

Guðlaugur vann boltann á miðsvæðinu og lyfti boltanum innfyrir vörn Inter Miami, þar mætti Benteke og kláraði færi sitt vel.

Þjálfari Guðlaugs er markahæsti leikmaður Manchester United frá upphafi, Wayne Rooney, og situr liðið í 7. sæti Austurdeildarinnar með 23 stig.

Róbert Orri Þorkelsson spilaði allan leikinn í vörn Montréal sem tapaði illa fyrir Piladelphia Union, 3:0. Leikurinn var annar byrjunarliðsleikur Róberts í deildinni á tímabilinu. Montréal er í 11. sæti Austurdeildarinnar með 19 stig.

Þá kom Dagur Dan Þórhallsson inná sem varamaður á 84. mínútu þegar Orlando City vann sigur á New York Red Bulls, 3:0. Orlando er í 8. sæti Austurdeildarinnar með 23 stig.

Þorleifur Úlfarsson, leikmaður Houston Dynamo, kom inná sem varamaður á 69. mínútu í slæmu tapi síns liðs gegn St. Louis, 3:0. Houston situr í 9. sæti Vesturdeildar með 18 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka