Danmerkurmeistarar FC Kaupmannahafnar gerðu í dag 1:1-jafntefli á heimavelli gegn Randers í lokaumferð dönsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta.
Hákon Arnar Haraldsson kom inn af bekknum hjá FCK og lagði upp jöfnunarmark liðsins á 83. mínútu. Ísak Bergmann Jóhannesson var allan tímann á bekknum.
Kaupmannahafnarliðið tók við meistarabikarnum eftir leik og var fagnað vel á Parken.
AGF tryggði sér þriðja sætið og sæti í Sambandsdeildinni á næstu leiktíð með ótrúlegu 3:3-jafntefli gegn Brøndby á heimavelli.
Brøndby komst í 3:0 á 67. mínútu, en AGF neitaði að gefast upp og tókst að jafna. Mikael Anderson lék fyrstu 60 mínúturnar með AGF.