Juventus varð í dag ítalskur bikarmeistari í fótbolta með sigri á Roma, 1:0, í úrslitaleik á Arechi-vellinum í Salerno.
Sara Björk Gunnarsdóttir lék allan leikinn með Juventus og átti góðan leik á miðjunni. Fékk hún 7,4 í einkunn af 10 mögulegum á vefsíðunni Flashscore og var á meðal bestu leikmanna síns liðs.
Titillinn er sá fyrsti hjá Söru síðan hún kom til Juventus, en hún kom til félagsins fyrir þetta tímabil eftir veru hjá Wolfsburg og Lyon.
Ítalska landsliðskonan Barbara Bonansea skoraði sigurmarkið í uppbótartíma leiksins þegar allt stefndi í framlengingu.
Sigurinn er sætur fyrir Juventus sem mátti sjá af ítalska meistaratitlinum í hendur Roma í vor.