Daníel Guðjohnsen lék sinn fyrsta leik

Daníel Tristan Guðjohnsen lék sinn fyrsta leik fyrir aðallið Malmö …
Daníel Tristan Guðjohnsen lék sinn fyrsta leik fyrir aðallið Malmö í kvöld. Ljósmynd/mff.se

Daníel Tristan Guðjohnsen varð í kvöld enn einn íslenski knattspyrnumaðurinn sem ber eftirnafnið til þess að spila meistaraflokksleik sem atvinnumaður í íþróttinni.

Daníel Tristan, sem er aðeins 17 ára gamall, er á mála hjá Malmö í Svíþjóð og kom inn á sem varamaður í 5:0-sigri liðsins á Degerfors í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld.

Tækifærið fékk hann á 82. mínútu og lék þar með sinn fyrsta keppnisleik í meistaraflokki á ferlinum.

Daníel Tristan er af miklu fótboltafólki. Faðir hans, Eiður Smári, er markahæsti leikmaður í sögu íslenska karlalandsliðsins og afi hans, Arnór, var sömuleiðis atvinnu- og landsliðsmaður.

Tveir eldri bræður Daníels Tristans, þeir Sveinn Aron og Andri Lucas, eru báðir núverandi atvinnu- og landsliðsmenn og leika báðir einnig í Svíþjóð; Sveinn Aron með Elfsborg og Andri Lucas með Norrköping.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert