Faðir Messis átti leynifund á Spáni

Lionel Messi.
Lionel Messi. AFP/Franck Fife

Jorge Messi, faðir Lionels Messi og umboðsmaður knattspyrnumannsins, var myndaður í Barcelona á dögunum.

Það er ítalski félagaskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano sem greinir frá þessu en Messi, sem er 35 ára gamall, er á förum frá Frakklandsmeisturum París SG í sumar.

Messi hefur verið sterklega orðaður við Al-Hilal í Sádi-Arabíu, undanfarnar vikur, en hann hefur einnig verið orðaður við endurkomu til Barcelona.

Jorge Messi fundaði með Joan Laporta, forseta Barcelona, en Laporta hefur lýst því yfir opinberlega að hann vilji fá Messi aftur til félagsins.

Messi er uppalinn hjá félaginu og lék með Börsungum á árunum 2004 til 2021 en hann varð tíu sinnum Spánarmeistari með liðinu, þrívegis Evrópumeistari og sjö sinnum bikarmeistari.

Jorge Messi sagði við spænska íþróttadagblaðið Sport í dag að sonur sinn vildi fara aftur til Barcelona og það yrði sér mjög að skapi ef það gengi eftir. Það væri möguleiki á því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert