Forráðamenn knattspyrnuliðs Real Madrid horfa nú til Englands og vilja fá enska landsliðsfyrirliðann Harry Kane til þess að fylla skarð Karim Benzema hjá félaginu.
Það er BBC sem greinir frá þessu en Kane, sem er 29 ára gamall, er samningsbundinn Tottenham í ensku úrvalsdeildinni.
Framherjinn á eitt ár eftir af samningi sínum við Tottenham og er talið næsta víst að hann muni yfirgefa félagið, annaðhvort í sumar eða næsta sumar þegar samningur hans rennur út.
Kane hefur skorað 280 mörk í 435 leikjum fyrir Tottenham og kostar í kringum 100 milljónir punda en Benzema, sem hefur verið fyrirliði Real Madrid undanfarin ár, er á leið til Sádi-Arabíu.
Kane er ekki eini enski landsliðsmaðurinn sem er sagður vera á óskalista Real Madrid því Jude Bellingham hefur einnig verið sterklega orðaður við félagið.