Svíþjóðarmeistarar Häcken unnu góðan útisigur á Varberg í Íslendingaslag í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í kvöld.
Valgeir Lunddal Friðriksson lék allan leikinn fyrir Häcken og Oskar Tor Sverrisson lék síðari hálfleikinn fyrir Varberg.
Þegar enn var markalaust seint í fyrri hálfleik fékk Samuel Gustafson, miðjumaður Häcken, beint rautt spjald og þurftu gestirnir því að leika einum færri það sem eftir lifði leiks.
Þrátt fyrir áfallið náði liðið forystunni í uppbótartíma fyrri hálfleiks með marki Bénie Traoré úr vítaspyrnu.
Átján mínútum fyrir leikslok tvöfaldaði Momodou Sonko forystuna og staðan orðin vænleg fyrir Häcken.
Fór svo að liðið sigldi sterkum sigri í höfn.