Enski knattspyrnumaðurinn Tammy Abraham spilar ekki meira á þessu ári og allt næsta tímabil gæti verið í hættu eftir að hann sleit krossband í hné í lokaumferð ítölsku A-deildarinnar um helgina.
Abraham, sem er 25 ára sóknarmaður, leikur með Roma og skoraði átta mörk fyrir liðið í 38 leikjum í deildinni í vetur. Roma vann Spezia, 2:1, á heimavelli í lokaumferðinni en Abraham var ekið af velli í „hnjaskvagni“ eftir návígi við fyrrum samherja sinn hjá Chelsea, Ethan Ampadu.
Talið var líklegt að Abraham yfirgæfi Roma eftir þetta tímabil en hann hefur m.a. verið orðaður við Everton, Aston Villa og Chelsea. Ljóst er að þær áætlanir eru í uppnámi og framherjinn þarf að einbeita sér að endurhæfingu næstu mánuðina.