Jarrod Bowen tryggði West Ham dramatískan 2:1-sigur á Fiorentina í úrslitaleik Sambandsdeildarinnar í fótbolta í Prag í Tékklandi í kvöld.
Þetta er fyrsti titill West Ham í 43 ár og fyrsti Evróputitill félagsins í 57 ár.
Alsíringurinn Said Benrahma kom West Ham yfir á 62. mínútu úr vítaspyrnu. Sú forysta entist ekki lengi en fjórum mínútum síðar jafnaði Giacomo Bonaventura metin fyrir Fiorentina með laglegri afgreiðslu.
Það var svo á 90. mínútu sem sigurmarkið kom en þá þræddi Lucas Paquetá Jarrod Bowen í gegn með frábærri sendingu og Bowen kláraði fram hjá Pietro Terracciano í marki Fiorentina, 2:1, og West Ham er Sambandsdeildarmeistari.