Messi: Þetta er 100 prósent klárt

Lionel Messi er orðinn leikmaður Inter Miami í Bandaríkjunum.
Lionel Messi er orðinn leikmaður Inter Miami í Bandaríkjunum. AFP/Jean-Christophe Verhaegen

Lionel Messi staðfesti rétt í þessu í viðtali við Mundo og Sport á Spáni að hann væri orðinn leikmaður Inter Miami í Bandaríkjunum. Í kjölfarið staðfesti félagið tíðindin á Twitter-síðu sinni.

Messi kemur til bandaríska félagsins frá París SG í Frakklandi, þar sem hann lék í tvö tímabil eftir afar sigursæla og langa veru hjá Barcelona á Spáni.

„Þetta er 100 prósent klárt. Ég fer til Inter Miami,“ sagði Messi í byrjun viðtalsins í kvöld. 

Argentínumaðurinn viðurkenndi að hann hafi rætt við forráðamenn Barcelona, en að lokum  hafi félagaskiptin verið of flókin, því erfitt hefði reynst að fá forráðamenn spænsku deildarinnar til að samþykkja samning stórstjörnunnar.

David Beckham, sem gerði garðinn frægan sem leikmaður Manchester United, AC Milan og París SG, er eigandi Inter Miami.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert