Ráðinn til Úkraínu til 2026

Serhiy Rebrov tekur við liði Úkraínu.
Serhiy Rebrov tekur við liði Úkraínu. AFP/Sergei Supinsky

Serhiy Rebrov, fyrrverandi leikmaður West Ham og Tottenham, hefur verið ráðinn þjálfari úkraínska landsliðsins í knattspyrnu.

Hann var ráðinn til ársins 2026 og tekur við af Oleksandr Petrakov sem stýrði Úkraínumönnum í fyrsta leiknum í undankeppni EM en þá töpuðu þeir 2:0 fyrir Englendingum á Wembley.

Rebrov er 49 ára gamall og lék á sínum tíma 75 landsleiki fyrir Úkraínu. Hann lék með Tottenham í fjögur ár, á árunum 2000 til 2004, og í eitt tímabil með West Ham eftir það. Hann lék einnig með Dynamo Kiev, Shakhtar Donetsk, Fenerbache í Tyrklandi og Rubin Kazan í Rússlandi.

Sem þjálfari hefur hann stýrt Dynamo Kiev, Ferencváros í Ungverjalandi, Al-Ahli í Sádi-Arabíu og Al-Ain í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Þá var hann aðstoðarþjálfari landsliðsins um tveggja ára skeið.

Fyrsti leikur hans með úkraínska landsliðið er vináttuleikur gegn Þjóðverjum í Bremen á mánudaginn kemur. Úkraína mætir síðan Norður-Makedóníu á útivelli í undankeppni EM 16. júní og spilar heimaleik sinn gegn Möltu í Trnava i Slóvakíu 19. júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert