Spænski íþróttafréttamaðurinn Guillem Balague, sem skrifar til að mynda fyrir CBS Sports og BBC Sport, segir Lionel Messi hafa tekið ákvörðun um næsta áfangastað.
Sá er Miami í Flórída-ríki í Bandaríkjunum, þar sem hann kemur til með að semja við Inter Miami.
Messi has decided. His destination: Inter Miami
— Guillem Balague (@GuillemBalague) June 7, 2023
Leo Messi se va al Inter Miami
Inter Miami er í eigu fyrrverandi knattspyrnustjörnunnar David Beckham og leikur í efstu deild í Bandaríkjunum, MLS-deildinni.
Hinn 35 ára gamli Messi verður laus á frjálsri sölu þegar tveggja ára dvöl hans hjá París Saint-Germain tekur enda í lok mánaðarins.
Hefur honum til að mynda staðið til boða að semja við sádi-arabíska félagið Al-Hilal fyrir fúlgur fjár og þá hefur Barcelona sýnt því áhuga að fá Messi aftur heim.
Ef marka má orð hins áreiðanlega Balague er förinni hins vegar heitið til Bandaríkjanna að þessu sinni.
L’Équipe gerði að því skóna í síðustu viku að sá möguleiki væri fyrir hendi að Inter Miami myndi lána Messi til Barcelona í sex til 18 mánuði þó ekkert liggi fyrir í þeim efnum að svo stöddu.