Skiluðu stjóranum þýfinu (myndskeið)

Luciano Spalletti kvaddi með meistaratitli hjá Napoli.
Luciano Spalletti kvaddi með meistaratitli hjá Napoli. AFP/Alberto Pizzoli

Luciano Spalletti, fráfarandi knattspyrnustjóri Ítalíumeistara Napoli, fékk óvænta kveðju „gjöf“ frá hörðustu stuðningsmönnum liðsins eftir að hann stýrði Napoli til sigurs í ítölsku A-deildinni í fyrsta sinn í 33 ár á nýafstöðnu tímabili.

Í október árið 2021 lenti hann í þeirri leiðinlegu lífsreynslu að brotist var inn í bifreið hans og stýri bílsins og nokkrum geisladiskum úr bílnum var rænt.

Reyndust það vera nokkrir af hörðustu stuðningsmönnum Napoli, svokallaðir „ultras“, sem frömdu ódæðið.

Á dögunum kom einn þeirra færandi hendi í fjölmiðlaherbergi Napoli. Spalletti opnaði gjöfina og fann þar stýrið og geisladiskana, sem hann hefur eflaust talið týnt og tröllum gefið.

Sprakk Spalletti úr hlátri er hann sá hvernig í pottinn var búið eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert