Cristiano Biraghi, fyrirliði Fiorentina, varð fyrir þeirri leiðinlegu lífsreynslu að fá glas í höfuð sitt er hann hugðist taka hornspyrnu í úrslitaleik liðsins gegn West Ham United í Sambandsdeild UEFA í knattspyrnu karla í gærkvöldi.
Stuðningsmenn West Ham urðu sér þar með til skammar en þeir fleygðu ýmsum aðskotahlutum í áttina að Biraghi þar til einn þeirra hæfði hann með hörðu plastglasi.
West Ham hefur síðan fordæmt gjörðir „lítils hluta stuðningsmanna“ í yfirlýsingu.
Er Biraghi hlaut aðhlynningu, þar sem blæddi aftan úr höfði hans, biðlaði vallarkynnirinn á Fortuna-leikvanginum í Prag í Tékklandi til stuðningsmanna að hætta að fleygja hlutum inn á völlinn og að virða leikmenn og dómara.