Það var mikill hiti í stuðningsmönnum þegar West Ham og Fiorentina mættust í úrslitum Sambandsdeildar Evrópu í fótbolta í Prag í Tékklandi í gærkvöldi.
Stuðningsmenn Fiorentina veittust að stuðningsmönnum West Ham á götum tékknesku höfuðborgarinnar fyrir leik með þeim afleiðingum að 22 stuðningsmenn ítalska félagsins voru handteknir. Einn stuðningsmaður West Ham hlaut sömu meðferð.
Hitinn hélt áfram í leiknum því stuðningsmenn West Ham köstuðu glasi í Cristiano Biraghi, leikmann Fiorentina, með þeim afleiðingum að hann fékk gat á höfuðið. Þá gat Luka Jovic aðeins leikið fyrri hálfleikinn, þar sem hann nefbrotnaði í einvígi.
„Þetta fólk hjá West Ham eru skepnur. Þetta er óásættanleg hegðun, sem hafði augljóslega áhrif á frammistöðu okkar liðs. Þeir höfðu áhyggjur af eigin öryggi,“ sagði Rocco Commisso, forseti Fiorentina, við ítalska fjölmiðla eftir leik.