Frá Liverpool til Þýskalands

Naby Keita er að ganga til liðs við Werder Bremen.
Naby Keita er að ganga til liðs við Werder Bremen. Ljósmynd/Werder Bremen

Knattspyrnumaðurinn Naby Keita er að ganga til liðs við þýska 1. deildarfélagið Werder Bremen.

Þetta tilkynnti enska úrvalsdeildarfélagið Liverpool á samfélagsmiðlum sínum í dag en Keita, sem er 28 ára gamall, hefur leikið með Liverpool frá árinu 2018.

Samningur hans við Liverpool rennur út um næstu mánaðamót og heldur hann þá aftur til Þýskalands en hann lék með RB Leipzig á árunum 2016 til 2018 áður en hann gekk til liðs við Liverpool.

Alls lék hann 129 leiki fyrir Liverpool í öllum keppnum þar sem hann skoraði 11 mörk en hann náði aldrei að sýna sitt rétta andlit í Bítlaborginni þar sem hann var mikið meiddur.

Werder Bremen hafnaði í 13. sæti þýsku 1. deildarinnar á síðustu leiktíð og var lengi vel í fallbaráttu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert