Knattspyrnumaðurinn Jacob Mellis hefur misst allt, en hann lék á sínum tíma einn leik með Chelsea í Meistaradeild Evrópu og þótti mjög efnilegur.
Hann náði hins vegar ekki að festa sig í sessi hjá Chelsea og var lánaður til Southampton og Barnsley, áður en hann gekk alfarið til liðs við Barnsley.
Eftir það lék hann með átta liðum í neðri deildum Englands, en að lokum þurfti hann að leggja skóna á hilluna vegna meiðsla á síðasta ári.
Mellis hefur átt í miklum erfiðleikum með lífið eftir fótboltann, því hann er nú heimilislaus og að glíma við mikinn áfengisvanda.
„Ég á ekki bíl, heimili og er ekki með neinar tekjur,“ sagði Mellis í opinskáu viðtali við Daily Mail.
„Ég hef ekkert að gera á daginn. Ég ætlaði mér ekki að hætta í fótbolta og þetta er erfitt. Ég er svo að glíma við áfengisvanda og ég drakk mikið á meðan á ferlinum stóð og þá hafði ég enga stjórn,“ bætti hann við.