Enska knattspyrnufélagið Chelsea hefur fengið til sín bandarísku landsliðskonuna Catarinu Macario en hún kemur þangað frá Frakklandsmeisturum Lyon.
Samningur Macario við Lyon rennur út í lok mánaðarins og þá fer hún til enska félagsins án greiðslu og hefur samið við það til þriggja ára. Chelsea varð á dögunum enskur meistari í sjötta sinn á síðustu níu árum.
Catarina Macario er 23 ára gömul, fædd í Brasilíu en flutti árið 2012 til Bandaríkjanna, og leikur sem sókndjarfur miðjumaður. Hún skoraði tvö mörk fyrir Bandaríkin í sigri gegn Íslandi, 5:0, á alþjóðlega She Believes-mótinu í Bandaríkjunum snemma á síðasta ári og hefur skorað átta mörk í fyrstu 17 landsleikjum sínum.
Hún hefur leikið með Lyon í tvö og hálft ár en missti alveg af nýliðnu tímabili eftir að hafa slitið krossband í hné. Þar á undan skoraði hún 19 mörk í 27 deildaleikjum fyrir félagið og þá gerði hún níu mörk fyrir liðið í Meistaradeild Evrópu tímabilið 2021-22, þegar það varð Evrópumeistari.