Viðstaddur í fyrsta sinn í 13 ár

Úrslitaleikur Meistaradeildarinnar er í kvöld.
Úrslitaleikur Meistaradeildarinnar er í kvöld. AFP/Umit Turhan

Eigandi enska knattspyrnufélagsins Manchester City, Sheikh Mansour, verður viðstaddur er lið hans mætir Inter Mílanó í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í Istanbúl í kvöld. 

Þetta er aðeins annar leikurinn sem eigandinn mætir á síðan fjárfestingafélag hans keypti Manchester-félagið árið 2008. 

Eini leikurinn sem Mansour hefur verið áður viðstaddur á var 3:0-sigur á Liverpool í ensku úrvalsdeildinni árið 2010, eða fyrir 13 árum. 

Undir eign Mansour hefur City sjö sinnum orðið Englandsmeistari og fimm sinnum á síðustu sex árum. Liðið komst einu sinni áður í úrslitaleik Meistaradeildarinnar, árið 2021, en mátti þola 1:0-tap gegn Chelsea. 

Í kvöld gæti Manchester City orðið annað liðið í sögu ensku knattspyrnunnar til að vinna þrennuna, deildina, bikarkeppnina og Meistaradeildina, en nágrannar þeirra í Manchester United gerðu það fyrst árið 1999. 

Leikur Manchester City og Inter hefst klukkan 19:00 og verður í beinni textalýsingu á mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert