Kevin De Bruyne fór meiddur af velli á 36. mínútu í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í gær þegar Manchester City varð Evrópumeistari í fyrsta sinn í sögu félagsins.
Þetta er annar úrslitaleikur Meistaradeildarinnar í röð sem De Bruyne fer útaf vegna meiðsla en hann fór einnig útaf þegar Manchester City tapaði fyrir Chelsea í úrslitum Meistaradeildarinnar árið 2021.
„Síðustu tveir mánuðir hafa verið erfiðir, ég hef verið í vandræðum með lærið á mér. Það slitnaði núna en það er eins og það er, ég reyndi allt til þess að vera í lagi. Það er synd því mér leið vel í upphafi leiks. Liðið er nógu gott og við unnum leikinn.“ sagði De Bruyne eftir leikinn í gær.
Belginn segist vera stoltur af því að spila fyrir Manchester City.
„Þetta er stórkostlegt, við höfum unnið lengi að þessu. Miðað við það sem við gerðum sem lið áttum við þetta skilið, við töpuðum ekki leik í Meistaradeildinni. Þetta var ekki besti leikurinn en úrslitaleikir eru alltaf erfiðir og nú er tími til að fagna.“ sagði De Bruyne að lokum.