Eins og allir vita hefur knattspyrnugoðsögnin Lionel Messi ákveðið að ganga til liðs við Inter Miami í Bandaríkjunum.
Messi, sem er 35 ára gamall, mun verða kynntur sem leikmaður Inter Miami í júlí þegar samningur hans við PSG rennur út.
En hvernig hefur félag eins og Inter Miami efni á því að semja við besta leikmann allra tíma? Félagið og deildin sjálf beitti ýmsum leiðum til þess að fá Messi í MLS-deildina.
Talið er að Messi muni fá 53 milljónir Bandaríkjadala frá Inter Miami á ári hverju eða tæplega sjö og hálfan milljarð íslenskra króna. Með þessu verður Messi fimmti launahæsti íþróttamaðurinn í Bandaríkjunum. Apple og Adidas munu einnig greiða Messi vænar summur.
Apple á sýningarréttinn að MLS-deildinni og selur svokallaðan „League Pass“ fyrir alla leiki deildarinnar. Messi mun fá prósentu af þeim fjölda sem kaupir sér áskrift sérstaklega til að sjá hann spila.
Inter Miami leikur í treyjum frá Adidas og mun Messi fá hluta af treyjusölu félagsins í sinn vasa. Þá mun Messi einnig fá eignarhlut í félaginu sjálfu.
Messi hefur hinsvegar sett fram kröfur um að Inter Miami sækji fleiri gæðaleikmenn í liðið. David Beckham, eigandi Inter Miami, hefur lýst yfir áhuga að fá Sergio Busquets og Ángel Di María til félagsins. Inter Miami hefur farið skelfilega af stað í Austurdeild MLS-deildarinnar en liðið situr í neðsta sæti deildarinnar með 15 stig eftir 17 leiki og aðeins 16 mörk skoruð.