Þýskalandsmeistarar Bayern München hafa samið við austurríska miðjumanninn Konrad Laimer um að leika með karlaliðinu næstu fjögur árin.
Laimer, sem er 26 ára, kemur frá RB Leipzig, þar sem hann hefur leikið undanfarin sex tímabil. Þar á undan lék hann með venslafélagi Leipzig í heimalandinu, Red Bull Salzburg.
Austurríski landsliðsmaðurinn er kröftugur og vinnusamur miðjumaður sem getur einnig leyst af í bakverði og á kanti.
Laimer kemur á frjálsri sölu frá Leipzig, þar sem hann lék 190 leiki og skoraði 15 mörk í öllum keppnum. Vann hann þýsku bikarkeppnina með liðinu undanfarin tvö tímabil.
Í samtali við heimasíðu Bayern sagði hann draum vera að rætast hjá sér og að stuðningsmenn gætu reitt sig á að hann myndi ávallt leggja sig allan fram.