Jude Bellingham, miðjumaður Borussia Dortmund, og Lewis Dunk, miðvörður Brighton & Hove Albion, hafa báðir dregið sig úr enska landsliðshópnum í knattspyrnu vegna meiðsla.
Bellingham gekkst undir aðgerð á hné á dögunum eftir að hafa misst af síðustu tveimur leikjum Dortmund á tímabilinu vegna meiðslanna og verður ekki leikfær í leikjum Englands gegn Möltu og Norður-Makedóníu í undankeppni EM 2024.
Dunk hefur þá greint frá því að hann hafi spilað síðustu leiki Brighton meiddur í því skyni að hjálpa liðinu að ná Evrópusæti í fyrsta sinn í sögu félagsins. Hann væri enn meiddur og myndi ekki jafna sig í tæka tíð fyrir leikina tvo.