Eins og fram kom í fréttum í dag hefur danska knattspyrnufélagið FC Köbenhavn fengið tilboð frá Frakklandi í landsliðsmanninn Hákon Arnar Haraldsson.
Danska blaðið BT skýrði frá því að um lið Lille væri að ræða en það varð franskur meistari fyrir tveimur árum, skákaði þá stórveldinu París SG, og hafnaði í fimmta sæti á nýliðnu keppnistímabili.
Þá kemur fram að kaupverðið á Hákoni myndi samsvara á bilinu tveimur til þremur milljörðum íslenskra króna.
Ef það gengur allt saman eftir eiga Akurnesingar von á gríðarlega háum uppeldisbótum, sem uppeldisfélag Hákonar Arnars.
Uppeldisbætur eru oftast á bilinu 10 til 20 prósent af kaupverði og sé áðurnefnd upphæð rétt gæti hlutur Skagamanna í sölunni orðið allt að 300 til 600 milljónir króna.
Þar yrði þá um að ræða langhæstu upphæð sem íslenskt knattspyrnufélag hefur fengið vegna sölu á sínum leikmanni.