Féll þriðja tímabilið í röð

Ethan Ampadu (til hægri) í leik með Spezia gegn AC …
Ethan Ampadu (til hægri) í leik með Spezia gegn AC Milan í síðasta mánuði. AFP/Vincenzo Pinto

Velski knattspyrnumaðurinn Ethan Ampadu, sem lék með Spezia í ítölsku A-deildinni að láni frá enska félaginu Chelsea á nýafstöðnu tímabili, mátti þola það að falla niður um deild þriðja tímabilið í röð þegar Spezia tapaði umspilsleik gegn Verona í gærkvöldi.

Hinn 22 ára gamli Ampadu hefur stöðugt verið lánaður út undanfarin ár og lék einnig í A-deildinni á þarsíðasta tímabili, þegar hann féll með Venezia.

Tímabilið á undan því, 2020/2021, var hann á láni hjá Sheffield United og féll með liðinu úr ensku úrvalsdeildinni.

Fyrir þetta tímabil endurvakti ítalska A-deildin reglu um að ef liðin í 17. og 18. sæti eru jöfn að stigum að 38 umferðum loknum skulu þau spila hreinan úrslitaleik um að halda sæti sínu í deildinni.

Spezia hafnaði í 17. sæti og Hellas Verona í 18. sæti. Bæði fengu þau 31 stig en Spezia hafnaði sæti ofar vegna betri árangurs í innbyrðis viðureignum liðanna.

Þar með fékk Spezia heimaleik í úrslitaleiknum um sætið, sem hafði þó lítið að segja í gærkvöldi.

Verona komst yfir snemma leiks áður en Ampadu jafnaði metin fyrir Spezia eftir stundarfjórðungs leik.

Gestirnir frá Verona bættu hins vegar við tveimur mörkum áður en fyrri hálfleikur var úti, unnu leikinn 3:1 og héldu sæti sínu á meðal þeirra bestu.

Spezia leikur því í B-deildinni á næsta tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert