Gat ekki haldið aftur af tárunum (myndskeið)

Claudio Ranieri.
Claudio Ranieri. AFP

Reynsluboltinn Claudio Ranieri stýrði Cagliari upp í ítölsku A-deildina í knattspyrnu karla í gær þegar liðið vann hádramatískan sigur á Bari í umspili um laust sæti.

Ranieri tók við sem knattspyrnustjóri Cagliari í desember síðastliðnum þegar liðið var í 14. sæti B-deildarinnar.

Undir hans stjórn vann Cagliari sig stöðugt upp töfluna og hafnaði að lokum í 5. sæti, sem gaf sæti í umspili.

Í leiknum gegn Bari í gær stefndi allt í framlengingu þar sem enn var markalaust þegar komið var fram í uppbótartíma.

Leonardo Pavoletti, sem var nýkominn inn á sem varamaður, gerði sér hins vegar lítið fyrir og skoraði sigurmark Cagliari á fjórðu mínútu uppbótartíma, tryggði liðinu 1:0-sigur og um leið sæti í A-deildinni á næsta ári.

Ranieri, sem er  71 árs, hefur marga fjöruna sopið í boltanum og stýrði til að mynda Cagliari áður frá 1988 til 1991.

Í gær átti hann erfitt með að halda aftur af tilfinningum sínum þegar lokaflautið gall í Bari.

Myndskeið af innilegum fagnaðarlátum hans má sjá hér:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert