Hákon til Frakklands?

Hákon Arnar Haraldsson í leik með íslenska landsliðinu.
Hákon Arnar Haraldsson í leik með íslenska landsliðinu. Ljósmynd/Alex Nicodim

Hákon Arnar Haraldsson, leikmaður FC Köbenhavn og íslenska landsliðsins í knattspyrnu, er orðaður við brottför til Frakklands í sumar.

Copenhagen Sundays, miðill sem er tileinkaður danska liðinu, kveðst hafa heimildir fyrir því að stórt franskt félag sé áhugasamt um að fá Hákon Arnar í sínar raðir og eigi nú í viðræðum við Köbenhavn.

Það rímar við það sem fram kom í hlaðvarpsþættinum Dr. Football á dögunum, þar sem franska félagið Lille var sagt vilja festa kaup á honum.

Samkvæmt Copenhagen Sundays yrði kaupverðið á bilinu 2,3 til 3 milljarðar íslenskra króna.

Austurríska félagið Red Bull Salzburg er þá enn sagt áhugasamt um Skagamanninn en félagið lagði fram tilboð í janúar síðastliðnum, sem Köbenhavn hafnaði.

Uppfært kl. 11:51: Köbenhavn hefur staðfest að því hafi borist tilboð í Hákon Arnar frá ónefndu frönsku félagi. Danski miðillinn B.T. greinir frá því að Lille sé félagið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert