Ég tók þátt í sex stórmótum frá 2004 til 2014, þremur heimsmeistaramótum og þremur Evrópumótum.
Evrópukeppnin árið 2012 fór fram í Póllandi og Úkraínu. Við lékum í undanriðlinum í Kharkiv og Lviv. Úkraína býr yfir mikilli knattspyrnumenningu, það leyndi sér ekki.
Philipp Lahm skrifar þennan pistil. Hann var fyrirliði þýska landsliðsins í knattspyrnu þegar það varð heimsmeistari árið 2014 og lék með Bayern München í fimmtán ár. Hann er mótsstjóri Evrópumóts karla sem fram fer í Þýskalandi árið 2024. Pistlar hans, „Mitt sjónarhorn“, birtast reglulega í Morgunblaðinu og/eða mbl.is. Þeir eru skrifaðir í samvinnu við Oliver Fritsch, íþróttaritstjóra þýska netmiðilsins Zeit On-line, og birtast í fjölmiðlum nokkurra Evrópulanda.
Úkraína hefur líka átt frábæra fótboltamenn. Andriy Shevchenko, Igor Belanov og Oleh Blokhin voru allir kjörnir knattspyrnumenn ársins í Evrópu. Valery Lobanovsky, goðsögnin sem þjálfaði Dynamo Kiev, hefur enn áhrif á evrópskan fótbolta því margt í leikfræðinni kemur frá honum.
Þýska landsliðið þurfti að komast yfir erfiða hindrun á þeim tíma sem ég var að vinna mér inn stöðu sem atvinnumaður hjá Bayern. Michael Ballack og Oliver Kahn fengu að finna fyrir liði þeirra á heimsmeistaramótinu árið 2002 þar sem Úkraína var erfiður andstæðingur í úrslitakeppninni.
Sem fyrirliði landsliðsins leit ég á mig sem fulltrúa Þýskalands. Fyrir stórmótin kynnti ég mér því gestgjafaþjóðirnar vel. Áður en við fórum á EM 2012 ræddi ég um stjórnmálaástandið í Úkraínu við þýska tímaritið Der Spiegel. Hið unga lýðveldi var þá í hættu. Mér fannst Viktor Yanukovych takast á við stjórnarandstöðuleiðtogann Yuliu Tymoshenko á vafasaman hátt.
Ég ræddi því við Michel Platini um að sýna samstöðu með mannréttindum og frelsi fjölmiðla í Úkraínu. Forseti UEFA sagði: "Mér er sama hvað herra Lahm segir. Ég skipti mér ekki af stjórnmálum. Ég er í fótbolta."
Á þessum tíma velti fólk því fyrir sér hvort Úkraína yrði áfram lýðræðislegt þjóðfélag. Í dag berst Úkraína fyrir frelsi Evrópu.
Þann 12. júní (í dag) leikur Þýskaland sinn þúsundasta landsleik frá upphafi. Þýska knattspyrnusambandið valdi réttan mótherja, Úkraínu. Fótbolti er góð aðferð til að sýna friðarvilja og alþjóðlegan skilning. Landsleikir eru besta leiðin til þess og þeir verða sífellt mikilvægari á þessum breyttu tímum.
Sem betur fer eru haldin alþjóðleg mót í Evrópu, vöggu fótboltans. Með þeim kynnast þjóðir hver annari, þar er ýtt undir samstöðuna. Næstu daga og vikur verða milljónir manna á faraldsfæti. Króatar mæta Hollendingum, Spánverjar mæta Ítölum. Kósóvó leikur við Rúmeníu, Belgía mætir Austurríki og Ísland mætir Slóvakíu.
Gíbraltar og Frakkland takast á þótt 200 sæti skilji þjóðirnar að á heimslistanum. Þýska landsliðið fer til Póllands í annan vináttuleik og Ísrael er á meðal mótherja þýska 21-árs landsliðsins. Í þessum viðureignum minnist Evrópa fortíðarinnar og leggur grunn að framtíðinni.
Liðsíþróttin knattspyrna, sem hefur margvíslegar hliðar, getur skapað margt fleira en úrslit á stigatöflu. Pólland hefur til dæmis tekið við meira en hálfri annarri milljón Úkraínumanna á flótta, fleirum en nokkur önnur þjóð. Sú staðreynd að þessar nágrannaþjóðir héldu alþjóðlegt knattspyrnumót í sameiningu fyrir áratug hjálpaði eflaust til hvað samstöðuna varðar.
Landslið er alltaf mjög sérstakt, vegna þeirra reglna sem allir hafa sameinast um. Þjálfarar geta ekki keypt stjörnur, stjórnendur geta ekki stækkað leikmannahópana. Og leikmenn velja ekki um hvert þeirra lið er. Í landsliðinu sjá leikmennirnir hvar þeir standa. Fótboltamaður er alinn upp í sínu umhverfi og spilar með liði í nágrenninu. Ef hann er efnilegur, uppgötvar stærra og fjarlægara félag hann, og smá saman áttar hann sig á því að hann er borgari ákveðins lands, sem býður upp á ákveðin tækifæri og möguleika, en ekki neins annars.
Í 113 skipti klæddist ég þýsku landsliðstreyjunni. Það var allt öðruvísi en að spila með félagsliði. Þegar ég var ungur drengur skipti fátt mig meira máli en landsliðið. Það var eins og heil eilífð að bíða í tvö ár eftir næsta stórmóti. Ég varð fótboltaáhugamaður vegna heimsmeistaramótsins árið 1990 og ég minnist enn vítaspyrnunnar hjá Andy Brehme eins og hún hafi verið tekin í gær. Þegar ég var sjálfur landsliðsmaður rann þetta saman í eitt. Í huganum spilaði ég við hliðina á hetjunum mínum, Matthäus, Brehme og Littbarski.
Árið 2006, á mínu fyrsta heimsmeistaramóti, upplifðum við „sumarævintýrið“ í Þýskalandi. Þá gerði ég mér fyrst grein fyrir því að ég væri hluti af liði sem kæmi fram fyrir hönd þjóðarinnar, með vináttu og opinn huga að leiðarljósi. Uppruni minn var mikilvægur og fótboltinn fékk dýpri merkingu.
Á næsta ári mætumst við aftur í mínu heimalandi, þann 14. júní er eitt ár þar til keppnin hefst. Það er jákvætt að 24 þjóðir skuli taka þátt í lokakeppninni. Að vera þar sem hluti af Evrópu er stórkostlegt. Þessi ólympíuhugsjón verður stöðugt mikilvægari, hún kallar eftir aukinni þátttöku. Árið 2006 var fjöldi fólks á götum úti, á næsta ári endurtökum við þessa hátíð mismunandi þjóða, kynslóða og eiginlega allra.
Vegna vinsælda sinna er fótboltinn mikilvægur. Fólk helgar sig honum, fagnar innilega og sýnir samstöðu þrátt fyrir samkeppnina. Svona afþreying sem höfðar til þjóðfélagsins er einstök. Í dag horfi ég á fótboltann undir þessum formerkjum.
Svona þroskaðist ég: Var stuðningsmaður sem dáðist að hetjunum sínum, varð að leikmanni sem stóð við hlið þeirra á vellinum í 113 skipti og fann fyrir þeirri ábyrgð að koma fram fyrir hönd lýðræðissinnaðrar þjóðar sinnar, og varð fyrirliði sem skoðaði hvert lið hans stefndi.
Og nú er ég framkvæmdastjóri fyrir mót þar sem við fögnum evrópusku gildunum og styrkjum þau. Þannig horfi ég líka á Úkraínu. Atburðarásin þar er ekki bara ógn við Úkraínumenn, heldur líka við okkur. Þess vegna er vináttulandsleikur við Úkraínu frábær hugmynd.