Franska knattspyrnustjarnan Kylian Mbappé hefur tilkynnt félagi sínu París SG að hann muni ekki framlengja samning sinn um eitt ár í Parísarborg. Mbappé tilkynnti Parísarliðinu þetta í skriflegu bréfi.
Samningur Mbappé gildir til loka næsta tímabils en samningur hans, sem hann skrifaði undir í fyrrasumar, var sagður vera til sumarsins 2025. Það kom aftur á móti í ljós í síðasta mánuði að samningur Mbappé væri sundurliðaður sem tveggja ára samningur, með möguleika á öðru ári, sem þýðir að það var undir Mbappé komið hvort hann vildi framlengja eða ekki.
Núverandi samningur Mbappés gildir því til næsta sumars en samkvæmt fjölmiðlum í Frakklandi vill Parísarliðið ekki láta hann fara á frjálsri sölu, og mun segja honum að annaðhvort framlengi hann eða fari í sumar.
Mbappé hefur allan sinn feril verið orðaður við Real Madrid, en risarnir í ensku úrvalsdeildinni eru allir sagðir hafa áhuga.