Emre Can, miðjumaður Borussia Dortmund og þýska landsliðsins í knattspyrnu, segist líklegast aldrei munu jafna sig á því að Dortmund hafi ekki tekist að vinna þýska meistaratitilinn í lokaumferð deildarinnar í lok síðasta mánaðar.
„Ég get ekki enn útskýrt þetta. Ég veit í raun ekki hvort ég muni nokkurn tímann geta jafnað mig á þessu. Titillinn sem rann Dortmund úr greipum mun líklega fylgja mér að eilífu,“ sagði Can í samtali við þýska miðilinn Sport1.
Fyrir lokaumferðina var Dortmund í efsta sæti þýsku 1. deildarinnar, tveimur stigum fyrir ofan Bayern München.
Dortmund gerði hins vegar jafntefli við Mainz á heimavelli, 2:2, á meðan Bayern vann Köln, 2:1, á útivelli. Þar með unnu Bæjarar þýska meistaratitilinn á betri markatölu.
„Það er erfitt að tala um þetta. Allir borgarbúar, stuðningsmenn og liðið voru tilbúin að vinna þennan titil. Sú staðreynd að okkur tókst það ekki mun líklega ásækja okkur að eilífu,“ bætti Can við.