Tryggði sigurinn á afmælisdeginum

Hlín Eiríksdóttir hefur verið drjúg með Kristianstad í ár.
Hlín Eiríksdóttir hefur verið drjúg með Kristianstad í ár. Ljósmynd/kdff.nu

Hlín Eiríksdóttir skoraði seinna mark Kristianstad í dag þegar liðið vann góðan útisigur á Norrköping, 2:0, í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Hlín skoraði seinna mark Kristianstad í leiknum á 72. mínútu og gulltryggði með því sigurinn en þetta er fimmta mark Hlínar í fyrstu tólf umferðum deildarinnar. Hún hélt með þessu upp á afmælisdaginn en hún er 23 ára gömul í dag.

Hlín lék allan leikinn og Amanda Andradóttir kom inn á hjá Kristianstad á 66. mínútu. Diljá Ýr Zomers kom inn á hjá Norrköping á 77. mínútu.

Kristianstad er í fimmta sæti deildarinnar eftir tólf umferðir með 23 stig. Fyrir ofan eru Häcken með 31 stig, Piteå með 27, Hammarby með 26 og Linköping með 25 stig.

Norrköping er í 11. sæti af fjórtán liðum með tíu stig og hefur tapað síðustu átta leikjum í röð, eftir að hafa fengið tíu stig úr fyrstu fjórum umferðunum, en liðið er nýliði í deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert