Vildi hjálpa Slóvakíu gegn Íslandi

Marek Hamsik skoraði 100 mörk fyrir Napoli í A-deildinni á …
Marek Hamsik skoraði 100 mörk fyrir Napoli í A-deildinni á Ítalíu. Hann spilar líklega á Laugardalsvellinum á laugardagskvöldið. AFP

Marek Hamsik, þekktasti knattspyrnumaður Slóvakíu, er óvænt í landsliðshópi Slóvaka fyrir leikinn gegn Íslandi sem fer fram á Laugardalsvellinum á laugardagskvöldið.

Hamsik er 35 ára gamall, leikja- og markahæsti leikmaður slóvakíska landsliðsins frá upphafi með 136 leiki og 26 mörk.

Hann tilkynnti um síðustu mánaðamót, þegar hann lék sinn síðasta heimaleik með Trabzonspor í Tyrklandi, að hann hefði ákveðið að leggja skóna á hilluna.

Hamsik hætti að spila með landsliðinu á síðasta ári, en Francesco Calzona landsliðsþjálfari Slóvaka, bað hann um að gefa kost á sér í liðið fyrir leikina gegn Íslandi og Liechtenstein 17.  og 20. júní, og Hamsik varð við þeirri ósk.

Ítarlegt viðtal við Calzona mun birtast í Morgunblaðinu í fyrramálið og þar var hann spurður um Hamsik.

Við lentum í vandræðum vegna meiðsla, höfðum samband við hann og hann var alveg til í að hjálpa okkur í síðasta sinn,“ sagði Calzona við Morgunblaðið.

Hamsik lék með Napoli í 12 ár og skoraði 100 mörk fyrir liðið í 408 leikjum í ítölsku A-deildinni. Þar lágu leiðir hans og Calzona saman en Calzona var aðstoðarþjálfari Napoli og hægri hönd Maurizio Sarri, knattspyrnustjóra félagsins, á árunum 2015 til 2018.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert