Franski knattspyrnumaðurinn Kylian Mbappé, leikmaður Parísar Saint-Germain, segist ekki vera á leið frá félaginu í sumar þrátt fyrir að hafa tilkynnt forráðamönnum félagsins að hann hygðist ekki framlengja samning sinn um eitt ár til viðbótar.
Núverandi samningur Mbappé, sem er fyrirliði franska landsliðsins, rennur út sumarið 2024 og getur hann því farið frá PSG á frjálsri sölu næsta sumar.
Ef marka má nýjustu ummæli Mbappé á Twitter-aðgangi hans, þar sem sóknarmaðurinn lagði út af fréttum um að hann vildi fara til Real Madríd strax í sumar, virðist stefna í það að leikmaðurinn fari ekki fet í sumar og yfirgefi PSG án greiðslu næsta sumar.
„Lygar! Ég hef þegar sagt að ég muni halda kyrru fyrir hjá PSG þar sem ég er mjög ánægður,“ skrifaði Mbappé.
Franskir fjölmiðlar hafa þó greint frá því að PSG vilji alls ekki missa hann á frjálsri sölu næsta sumar og að því þurfi Mbappé annaðhvort að skrifa undir nýjan samning eða róa á önnur mið nú í sumar.