Bellingham kominn til Real Madríd

Jude Bellingham.
Jude Bellingham. AFP/Kirill Kudryavtsev

Spænska knattspyrnufélagið Real Madríd hefur staðfest kaupin á enska landsliðsmanninum Jude Bellingham. Skrifaði hann undir sex ára samning.

Bellingham er enn aðeins 19 ára gamall en á þrátt fyrir það að baki fjögur ár í meistaraflokki, fyrst með Birmingham City í ensku B-deildinni og undanfarin þrjú tímabil með Borussia Dortmund.

Kaupverðið er um 100 milljónir evra. Heildarupphæðin gæti þó hækkað töluvert að ýmsum árangurstengdum ákvæðum uppfylltum.

Bellingham er miðjumaður sem hefur verið eftirsóttur af stærstu félögum heims undanfarin ár vegna vasklegrar framgöngu sinnar með Dortmund og enska landsliðinu.

Alls hefur hann leikið 176 leiki í öllum keppnum á meistaraflokksferli sínum með Dortmund og uppeldisfélaginu Birmingham og á þar að auki 24 A-landsleiki fyrir England, þar sem hann lék til að mynda á HM 2022 í Katar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert