Spænska knattspyrnufélagið Real Madríd hefur staðfest kaupin á enska landsliðsmanninum Jude Bellingham. Skrifaði hann undir sex ára samning.
Bellingham er enn aðeins 19 ára gamall en á þrátt fyrir það að baki fjögur ár í meistaraflokki, fyrst með Birmingham City í ensku B-deildinni og undanfarin þrjú tímabil með Borussia Dortmund.
Kaupverðið er um 100 milljónir evra. Heildarupphæðin gæti þó hækkað töluvert að ýmsum árangurstengdum ákvæðum uppfylltum.
👋 @BellinghamJude
— Real Madrid C.F. (@realmadrid) June 14, 2023
🤍 #HeyJude pic.twitter.com/jluhr0SJdv
Bellingham er miðjumaður sem hefur verið eftirsóttur af stærstu félögum heims undanfarin ár vegna vasklegrar framgöngu sinnar með Dortmund og enska landsliðinu.
Alls hefur hann leikið 176 leiki í öllum keppnum á meistaraflokksferli sínum með Dortmund og uppeldisfélaginu Birmingham og á þar að auki 24 A-landsleiki fyrir England, þar sem hann lék til að mynda á HM 2022 í Katar.