Eyjamaður í hópnum hjá Heimi

Richard King getur spilað gegn Katar á morgun.
Richard King getur spilað gegn Katar á morgun. mbl.is/Óttar Geirsson

Richard King, miðvörður ÍBV, er í landsliðshóp Jamaíku í knattspyrnu sem Heimir Hallgrímsson valdi fyrir vináttulandsleiki gegn Katar og Jórdaníu.

Jamaíkumenn mæta Katar í Wiener Neustadt í Austurríki á morgun og Jórdaníu á sama stað á mánudaginn kemur.

King kom til Eyjamanna í maí ásamt landa sínum Dwayne Atkinson og hefur staðið vaktina í vörn ÍBV í síðustu sex leikjum. Hann er 21 árs gamall og hefur leikið 7 landsleiki fyrir Jamaíku.

Níu leikmenn enskra liða eru í landsliðshópnum hjá Heimi og þar af þrír frá úrvalsdeildarliðum, Dexter Lembikisa frá Wolves, Amari'i Bell frá Luton og Delano Splatt frá Fulham.

Heimir er að undirbúa liðið fyrir Gullbikarinn, Gold Cup, þar sem Jamaíka mætir Bandaríkjunum í fyrsta leiknum í Chicago að kvöldi 24. júní.

King missir fyrir vikið væntanlega af  tveimur næstu leikjum ÍBV í Bestu deildinni sem eru gegn Val og KA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert