Harður og erfiður leikur gegn Íslandi

Milan Skriniar hefur ekki spilað leik síðan 14. mars en …
Milan Skriniar hefur ekki spilað leik síðan 14. mars en verið varamaður í þremur leikjum hjá Inter. AFP/Marco Bertotello

Milan Skriniar, fyrirliði knattspyrnulandsliðs Slóvakíu og leikmaður Inter Mílanó á Ítalíu, segir að framundan sé mjög harður og erfiður leikur gegn Íslendingum á Laugardalsvellinum næsta laugardagskvöld.

Skriniar missti af tveimur fyrstu leikjum Slóvakíu í undankeppni EM í mars vegna meiðsla og hefur ekkert spilað með Inter frá 14. mars en var þó í leikmannahópnum í þremur síðustu leikjum tímabilsins, þar á meðal úrslitaleik Meistaradeildarinnar gegn Manchester City síðasta laugardagskvöld.

„Ég er algjörlega búinn að ná mér. Ég þurfti að taka mér hvíld frá fótbolta en fór í aðgerð sem kom mér aftur í gang. Það eina sem ég sé eftir er að hafa ekki farið í aðgerðina fyrr. Nú æfi ég af fullum krafti,“ sagði Skriniar við slóvakíska íþróttanetmiðilinn sport.sk.

„Ef þjálfarinn ákveður að nota mig er ég tilbúinn til að hjálpa liðinu. Ég hef æft með Inter í þrjár vikur þannig að ég er klár. Það er auðvitað annað og meira að spila leik en mér hefur liðið vel á æfingum, ég er tilbúinn og einbeittur,“ sagði Skriniar, sem er 28 ára gamall og hefur leikið í átta ár í ítölsku A-deildinni, fyrstu tvö með Sampdoria en síðan með Inter.

Slóvakar hafa endurheimt fyrrverandi fyrirliða sinn og leikja- og markahæsta leikmann landsliðsins frá upphafi, Marek Hamsik, en hann hætti með landsliðinu í fyrra og lagði skóna á hilluna í byrjun þessa mánaðar. Hann féllst hins vegar á að koma með liðinu til Íslands.

„Hann fær fyrirliðabandið, það er ekkert vandamál fyrir mig að afhenda honum það. Við þurfum að komast í gegnum báða okkar leiki. Ég mun spila heilan leik ef ég þarf þess. Ef ég spila bara í 10 sekúndur þá mun ég gera það með ánægju. Leikurinn á Íslandi mun snúast um baráttu og við verðum að vera vel undir það búnir,“ sagði Milan Skriniar við sport.sk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert