Knattspyrnuþjálfarinn þaulreyndi, Neil Warnock, hefur ákveðið að taka slaginn sem stjóri Huddersfield Town í ensku B-deildinni á næsta tímabili eftir að hafa áður gefið það út að hann yrði ekki áfram.
Hinn 74 ára gamli Warnock var hættur knattspyrnuþjálfun þegar hann ákvað að hætta við að hætta og taka við stjórnartaumunum hjá Huddersfield í febrúar síðastliðnum.
Þá blasti fall niður í C-deild við liðinu er það var í 23. og næstneðsta sæti.
Eftir að Warnock tók við var hins vegar allt annað að sjá til liðsins og hafnaði það að lokum í 18. sæti, níu stigum fyrir ofan fallsvæðið, eftir að hafa unnið sjö leiki af 15 undir hans stjórn.
Þótti stuðningsmönnum um nokkurs konar kraftaverk að ræða miðað við hve dökkt útlitið var.
Í lok tímabilsins sagðist Warnock ekki munu koma til með að halda áfram með liðið en eftir viðræður við forráðamenn félagsins, sérstaklega framkvæmdastjórann Jake Edwards, snerist honum hugur.
„Nú gefst mér tækifæri til þess að gefa félaginu eitthvað til baka. Eftir að hafa rætt við Jake Edwards varð það augljóst að það myndi reynast mér erfitt að fara og einhvern nýjan að koma inn eftir allt sem við byggðum upp í lok síðasta tímabils,“ sagði Warnock við tilefnið.
Skrifaði hann undir eins árs samning.