Króatía er komin í úrslit Þjóðadeildar Evrópu eftir 4:2-útisigur á Hollandi í Rotterdam í Hollandi í kvöld.
Donyell Malen kom Hollendingum yfir á 34. mínútu leiksins, 1:0 sem voru hálfleikstölur.
Króatarnir mættu beittari til leiks í síðari hálfleik og á 55. mínútu jafnaði Andrej Kramaric metin fyrir Króatíu. Það var svo Mario Pasalic sem kom Króötum yfir á 73. mínútu, 2:1.
Allt stefndi til þess að Króatía myndi klára leikinn í venjulegum leiktíma en á sjöttu mínútu uppbótartímans jafnaði Noa Lang metin fyrir Hollendinga og tryggði þeim framlengingu.
Í framlengingunni voru Króatar þó sterkari og á 98. mínútu kom Bruno Petkovic Króötum yfir á nýjan leik, 3:2. Það var svo reynsluboltinn Luka Modric sem gekk endanlega frá leiknum á 116. mínútu með marki úr vítaspyrnu, 4:2.
Í úrslitaleiknum bíður annaðhvort Ítalía eða Spánn en þau mætast í Hollandi annað kvöld.