Ólíklegt að Messi verði með á næsta HM

Lionel Messi.
Lionel Messi. AFP/Franck Fife

Argentínski knattspyrnumaðurinn Lionel Messi telur það ólíklegt að honum muni snúast hugur og taka þátt á HM 2026 í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó.

Messi, sem er 35 ára, er fyrirliði argentínska landsliðsins og fór fyrir liðinu er það stóð uppi sem heimsmeistari á HM 2022 í Katar í desember síðastliðnum.

Á meðan því móti stóð lét Messi nokkrum sinnum hafa það eftir sér að það yrði að öllum líkindum hans síðasta heimsmeistaramót.

Hann samdi á dögunum við Inter Miami í bandarísku MLS-deildinni og höfðu vonir staðið til þess að Messi myndi íhuga að spila á HM þar í landi.

Hann er nú staddur í Peking í Kína fyrir vináttuleik Argentínu gegn Ástralíu. Í samtali við kínverska miðilinn Titan Sports var Messi spurður hvort hann myndi íhuga að spila á HM 2026.

„Ég held ekki. Þetta var síðasta heimsmeistaramót mitt. Ég mun sjá til hvað gerist en í grundvallaratriðum er ég ekki á leiðinni á næsta HM,“ svaraði Messi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert