Sjö milljónir fylgjenda á einni viku

Lionel Messi gengur til liðs við Inter Miami.
Lionel Messi gengur til liðs við Inter Miami. AFP

Knattspyrnumaðurinn Lionel Messi gengur í raðir bandaríska félagsins Inter Miami og mun spila með liðinu í MLS-deildinni þar í landi.

Félagið hefur strax fundið fyrir áhrifum Messi þrátt fyrir að hann sé ekki búinn að spila leik fyrir liðið. Samfélagsmiðlar félagsins hafa fengið milljónir fylgjenda síðan Messi skrifaði undir samning í Miami og hefur miðaverð á næstu leiki rokið upp.

Sló met eftir HM í fótbolta

Þegar fréttirnar bárust af félagaskiptunum var Instagram-reikningur félagsins með um eina milljón fylgjendur en stendur nú í yfir 8 milljónum fylgjenda og varð um leið það íþróttafélag í borginni sem er með flesta fylgjendur á miðlinum.

Messi er ekki ókunnugur því að ná háum tölum á samfélagsmiðlum en hann sló metið í viðbrögðum á einni mynd en yfir 75 milljónir hafa líkað við myndina þegar greinin er skrifuð.

Skjáskot/Instagram

Félagaskipti Messi hafa gert það að verkum að miðaverð á leiki félagsins í júlí minna á miðaverð í ensku úrvalsdeildinni og þá sérstaklega miðaverð á leiki Arsenal á liðnu tímabili þegar leit út fyrir að liðið væri að sigla í höfn sínum fyrsta Englandsmeistaratitli síðan tímabilið 2002-03.

Það er því mikill áhugi vestanhafs fyrir komu argentínska leikmannsins. Inter Miami situr nú á botni bandarísku MLS-deildarinnar og mun Messi reyna hjálpa liðinu að komast í úrslitakeppnina. Inter Miami er með 15 stig eftir 17 umferðir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert