Knattspyrnumaðurinn Viðar Ari Jónsson er á förum frá Honvéd í Ungverjalandi eftir eitt og hálft ár í herbúðum félagsins.
Fótbolti.net greinir frá í kvöld. Viðar gekk í raðir Honvéd frá Sandefjord í Noregi, en náði ekki að festa sig í sessi í ungverska liðinu, sem féll úr efstu deild eftir mikið vonbrigðatímabil.
Viðar lék 32 leiki með Honvéd og skoraði í þeim eitt mark, en hann gerði afar góða hluti með Sandefjord í Noregi, áður en leiðin lá til Ungverjalands.
Leikmaðurinn hefur leikið sjö A-landsleiki fyrir Ísland og leikið með Fjölni, FH og Brann auk Sandefjord og Honvéd.