Opinn fyrir endurkomu í ensku úrvalsdeildina

Sadio Mané gæti verið á leiðinni aftur í ensku úrvalsdeildina.
Sadio Mané gæti verið á leiðinni aftur í ensku úrvalsdeildina. AFP/Christof Stache

Senegalski knattspyrnumaðurinn Sadio Mané leikmaður Bayern München gæti verið aftur á leið í ensku úrvalsdeildina en hann er væntanlega á förum frá Þýskalandsmeisturunum.

Mané spilaði lítið með félaginu á nýafstöðnu tímabili eftir að hann gekk til liðs við það frá Liverpool. Eftir að Mané lenti í áflogum við Leroy Sané þá var Senegalinn settur út í kuldann og virðist ekki vera í plönum Tomas Tuchel þjálfara Bayern.

Breski stjórnmálamaðurinn Martin John Callanan, sem er mikill stuðningsmaður Newcastle, hitti á Mané á meðan hann var í vinnuferð í Senegal á dögunum. 

„Ég gat ekki annað en spurt hann hvort hann sé til í að koma til Newcastle á næstu leiktíð. Hann svaraði á dularfullan hátt og sagði að maður ætti aldrei að segja aldrei.“ sagði Callanan.

Mané er með háar launakröfur og ekki er víst að Newcastle sé til í að mæta þeim kröfum en forvitnilegt verður að fylgjast með hvað verður um Sadio Mané.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert