Landsliðsmaðurinn framlengir við Lyngby

Sævar Atli Magnússon hefur framlengt samning sinn við Lyngby.
Sævar Atli Magnússon hefur framlengt samning sinn við Lyngby. mbl.is/Arnþór Birkisson

Í dag var tilkynnt að landsliðsmaðurinn Sævar Atli Magnússon hafi framlengt samning sinn við danska knattspyrnufélagið Lyngby til ársins 2025.

Sævar Atli gekk til liðs við Lyngby árið 2021 frá uppeldisfélagi sínu, Leikni í Reykjavík.

Íslendingalið Lyngby er ekki á flæðiskeri statt þegar kemur að íslenskum knattspyrnumönnum en auk Sævars þá spila Alfreð Finnbogason og Kolbeinn Birgir Finnsson með liðinu ásamt því að Freyr Alexandersson er þjálfari þess.

„Ég hef ákveðið að framlengja samninginn því ég einfaldlega elska Lyngby. Ég elska að koma á hverjum degi með liðsfélögunum og tala við alla í kringum félagið,“ sagði Sævar í viðtali við heimasíðu Lyngby.

„Maður finnur hversu ástríðufullir allir eru í kringum félagið og það smitar út frá sér. Það er eitthvað einstakt fyrir mig að labba inn á heimavöll Lyngby,“ sagði Sævar enn fremur.

Það var ótrúleg dramatík undir lokin á nýafstöðnu tímabili í dönsku úrvalsdeildinni en jafntefli í lokaumferðinni tryggði Lyngby áframhaldandi veru í deildinni.

„Það var stórkostlegur dagur og stuðningsmennirnir voru magnaðir. Þetta var magnað. Dagur sem ég mun aldrei gleyma,“ sagði Sævar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert