Sjónlýsingin sló í gegn – „Ógleymanleg upplifun“

Stuðningsmenn Íslands í stúkunni er Ísland tók á móti Slóvakíu …
Stuðningsmenn Íslands í stúkunni er Ísland tók á móti Slóvakíu í gær. Eggert Jóhannesson

Knattspyrnusamband Íslands í samstarfi við samtök íþróttafréttamanna stóðu fyrir sjónlýsingu á landsleik Íslands og Slóvakíu í knattspyrnu í gær.

Lýsingin, sem er í raun og veru eins og útvarpslýsing, var send út í lokuðu hljóðkerfi fyrir blinda og sjónskerta vallargesti. Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson lýsti leiknum og þótti takast vel til.

„Sjónlýsingin á leik Íslands og Slóvakíu var alveg ótrúlega flott! Leikurinn hefði mátt fara betur en þessi upplifun verður mér ógleymanleg,“ sagði Baldur Snær Sigurðsson á Twitter í gær eftir leikinn og þakkaði Þorkeli og KSÍ fyrir.

Sjónlýsing verður einnig í boði þegar Ísland fær Portúgal í heimsókn á þriðjudaginn og hefur Blindrafélagi Íslands verið úthlutað 20 miðar á leikinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert