Brendan Rodgers hefur náð samkomulagi við skoska knattspyrnuliðið Celtic um að taka við sem stjóri liðsins.
Sky Sports greinir frá því á heimasíðu sinni að Rodgers sé að taka við liðinu en hann var látinn fara frá Leicester undir lok síðasta tímabils.
Rodgers er að halda á kunnuglegar slóðir en hann var þjálfari Celtic á árunum 2016-2019. Þar náði hann frábærum árangri en liðið vann bæði deildina og bikarkeppnina tvö ár í röð ásamt því að vinna deildarbikarinn öll þrjú árin.
Rodgers tekur við Celtic af Ante Postecoglou sem var ráðinn til Tottenham á dögunum.