Enska karlalandsliðið í knattspyrnu gerði sér lítið fyrir og vann 7:0-sigur á Norður-Makedóníu þegar liðin áttust við í C-riðli undankeppni EM 2024 á Old Trafford í Manchester í kvöld. Bukayo Saka skoraði þrennu.
Eftir tæplega hálftíma leik braut Harry Kane ísinn og eftir það reyndist eftirleikurinn auðveldur.
Áður en hálfleikurinn var úti var Bukayo Saka og Marcus Rashford búnir að bæta við og staðan því 3:0 í hálfleik.
Þegar aðeins sex mínútur voru liðnar af síðari hálfleik hafði Saka skorað tvívegis til viðbótar og fullkomnað þrennuna, sína fyrstu á ferlinum.
Áður en yfir lauk var Kalvin Phillips búinn að bæta við sjötta markinu auk þess sem Kane skoraði sitt annað mark og sjöunda mark Englendinga.
Kom það úr vítaspyrnu og er Kane nú búinn að skora 58 landsliðsmörk í aðeins 84 landsleikjum.
England er með fullt hús stiga, 12 stig, á toppi C-riðilsins.
Í D-riðli hafði Tyrkland betur gegn Wales, 2:0, og er áfram á toppi riðilsins, nú með níu stig.
Joe Morrell fékk beint rautt spjald í liði Wales undir lok fyrri hálfleiks og reyndist róðurinn erfiður eftir það.
Umut Nayir kom heimamönnum í Tyrklandi yfir á 72. mínútu áður en hinn 18 ára gamli Arda Güler innsiglaði sigurinn með sínu fyrsta landsliðsmarki í fjórða landsleiknum.
Armenía er í öðru sæti riðilsins með 6 stig en Wales í því þriðja með 4 stig.
Kasakstan vann frækinn útisigur á Norður-Írlandi, 1:0, og er í öðru sæti H-riðils á eftir toppliði Finnlands.
Abat Aymbetov skoraði sigurmark Kasakstan tveimur mínútum fyrir leikslok.
Staðan í riðlinum er ansi óvænt þar sem Danmörk og Slóvenía koma í næstu sætum á eftir, bæði með 7 stig eftir að hafa gert 1:1-jafntefli í kvöld.
Andraz Sporar kom Slóveníu í forystu áður en Rasmus Höjlund jafnaði metin fyrir Dani.