Finnar á toppinn – Úkraína marði Möltu

Daniel Håkans í þann mund að skora eitt af þremur …
Daniel Håkans í þann mund að skora eitt af þremur mörkum sínum fyrir Finnland í dag. Teemu Pukki sér í hvað stefnir. AFP/Jussi Nukari

Finnar lentu ekki nokkrum vandræðum með San Marínó í H-riðli undankeppni EM 2024 í knattspyrnu karla í dag. Á sama tíma marði Úkraína Möltu í C-riðli og Armenía vann mikilvægan sigur á Lettlandi í D-riðli.

Finnland hafði að lokum betur, 6:0, þar sem Daniel Håkans skoraði þrennu í sínum öðrum landsleik.

Teemu Pukki, Benjamin Källman, og Glen Kamara komust einnig á blað.

Eftir sigurinn er Finnland á toppi H-riðils með 9 stig eftir fjóra leiki. Slóvenía, Kasakstan og Danmörk koma þar á eftir, öll með 6 stig.

Í C-riðlinum lenti Úkraína í stökustu vandræðum með Möltu en hafði að lokum 1:0-sigur.

Viktor Tsygankov skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu á 72. mínútu.

Úkraína er í öðru sæti riðilsins með 6 stig, þremur stigum á eftir toppliði Englands sem á auk þess leik til góða gegn Norður-Makedóníu í kvöld.

Í D-riðli kom Nayair Tiknizyan Armenum yfir eftir 35 mínútna leik áður en Roberts Savalnieks jafnaði metin fyrir Letta um miðjan síðari hálfleik.

Ógæfan dundi svo yfir hjá Lettlandi þegar liðið fékk dæmda á sig vítaspyrnu undir lok leiksins.

Úr henni skoraði Tigran Barseghyan og tryggði Armenum 2:1-sigur.

Armenía fór með sigrinum upp að hlið Tyrklands, en bæði eru þau með 6 stig í efstu tveimur sætium D-riðils, en Tyrkir eru í efsta sæti með betri árangur í innbyrðis viðureignum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert