Mbappé hetja Frakka

Kylian Mbappé fagnar marki sínu ásamt Eduardo Camavinga í kvöld.
Kylian Mbappé fagnar marki sínu ásamt Eduardo Camavinga í kvöld. AFP/Franck Fife

Kylian Mbappé skoraði sigurmark Frakklands þegar liðið Grikkland með minnsta mun, 1:0, í B-riðli undankeppni EM 2024 í knattspyrnu í kvöld.

Markið skoraði fyrirliðinn á 55. mínútu og kom það úr vítaspyrnu.

Mbappé hefur nú skorað 40 landsliðsmörk í 70 leikjum og er enn aðeins 24 ára gamall.

Eftir sigurinn er Frakkland komið með þægilegt forskot á toppi B-riðils enda með fullt hús stiga, 12, að loknum fjórum umferðum.

Grikkland er áfram í öðru sæti með 6 stig.

Sviss fór illa að ráði sína þegar liðið glutraði niður tveggja marka forystu í 2:2-jafntefli gegn Rúmeníu í I-riðli.

Zeki Amdouni skoraði tvívegis í fyrri hálfleik og sá þannig til þess að Sviss var 2:0 yfir í leikhléi.

Amdouni, sem er 22 ára leikmaður Basel, hefur nú skorað fimm mörk í fyrstu fimm A-landsleikjum sínum.

Undir lok leiksins skoraði Valentin Mihaila hins vegar tvívegis fyrir gestina frá Rúmeníu.

Fyrst skoraði hann einni mínútu fyrir leikslok og á annarri mínútu uppbótartíma jafnaði hann metin.

Staðan á toppi riðilsins er því nokkurn veginn óbreytt þar sem Sviss er á toppnum með 10 stig og Rúmenía í öðru sæti með 8 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert