Hvalreki fyrir Heimi

Demarai Gray í þann mund að skora stórglæsilegt mark fyrir …
Demarai Gray í þann mund að skora stórglæsilegt mark fyrir Everton gegn Manchester City í janúar síðastliðnum. AFP/Oli Scarff

Demarai Gray, vængmaður enska úrvalsdeildarfélagsins Everton, hefur tekið ákvörðun um að skipta um ríkisfang og leika fyrir jamaíska landsliðið, þar sem Heimir Hallgrímsson er þjálfari.

Gray, sem er 26 ára gamall, lék á sínum tíma fyrir flest yngri landslið Englands og var valinn í A-landsliðið árið 2018, en kom þá ekki við sögu.

The Athletic greinir frá því að Heimir hafi verið í sambandi við hann af og á allt frá því að Eyjamaðurinn tók við stjórnartaumunum hjá Jamaíku í september síðastliðnum. Gray gat skipt um ríkisfang þar sem móðuramma hans og -afi eru frá Jamaíku.

Gray er í leikmannahópi Jamaíku sem Heimir er búinn að velja fyrir Gullbikar Norður- og Mið-Ameríku, sem hefst í Bandaríkjunum um næstu helgi.

Hinn eldfljóti og leikni Gray getur leikið á báðum köntum og í fremstu víglínu. Hann hóf ferilinn hjá Birmingham City í ensku B-deildinni, þaðan sem hann var keyptur til Leicester City árið 2016 og lék þar í fjögur og hálft ár.

Í janúar árið 2021 skipti Gray yfir til Bayer Leverkusen í þýsku 1. deildinni og samdi svo við Everton hálfu ári síðar.

Hefur hann leikið með bláa liðinu í Bítlaborginni Liverpool undanfarin tvö tímabil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert